laugardagur, 25. maí 2013

Eitt og annað sem bætir og kætir

Sæl öll og velkomin :)

Mig hefur lengi langað að stofna lífsstílsblogg og hér er það orðið að veruleika. Orðið lífsstílsblogg er ekki til í orðabók en samkvæmt minni persónulegu orðabók þýðir það skrif um allt sem bætir eða kætir líf höfundar. Þetta lífsstílsblogg fjallar því um hluti, málefni, hreyfingu, mat og fólk sem bætir mitt líf eða kætir mína sálu :) Ykkur er velkomið að fylgjast með.

Auðvitað er það fyrst og fremst fólkið í kringum okkur sem bætir og kætir ... en hlutir geta líka glatt mann og verið manni mikilvægir. Oftar en ekki tengir maður hluti við ákveðið fólk, verkefni eða aðstæður sem skipta mann máli. Sumir hlutir geta auðveldað manni lífið og bætt lífsgæðin og gefa þannig tilverunni ákveðið gildi :)

Í þessu fyrsta bloggi ætla ég að deila mynd af kommóðu sem hefur fylgt mér frá fermingu. En frá því fyrir fermingu hef ég pælt mikið í og haft sterkar skoðanir á því hvernig ég vilji hafa mitt nánasta umhverfi - á ég þar við bæði fólk og hluti :)

Kommóðuna góðu fékk ég í fermingargjöf frá systkinum pabba og ég man að hún var keypt í búðinni Heimilisprýði. Þar vann Jónas, pabbi Sigurlaugar æskuvinkonu minnar (sem ég nánast bjó hjá í nokkur ár!!). Jónas var mikill vinur minn og búðin hans var auðvitað algjörlega uppáhalds. Þar fengust margir fallegir hlutir og allar mublur sem ég keypti eða fékk í fermingargjöf komu þaðan. Eftir nokkur ár og nokkra flutninga var mublan orðin léleg, Jónas lagaði hana fyrir mig og hún varð sem ný. Fyrir 5 árum féll Jónas frá, langt fyrir aldur fram og má í raun segja að kommóðan sé mér ögn kærari fyrir vikið. 

Fyrir nokkrum árum var ég orðin pínu þreytt á henni og hefur hún staðið inni í bílskúr undanfarin tvö ár. Nú er ég nýflutt á nýjan stað og ákvað að draga fram gömlu góðu kommóðuna. Mér fannst aðeins þurfa að lappa uppá hana en tímdi alls ekki að mála hana! Ég ákvað því að senda móður mína í uppáhalds amerísku búðina mína Anthropology. Mig vantaði fallega hnúða (e.knobs). Þeir máttu vera áberandi og annað hvort hvítir (í stíl við flest húsgögnin) eða ísbláir (í stíl við fallegu KitchenAid hrærivélina). Mamma fann þessa yndislegu hnúða sem gera hana (að mínu mati) svo endalaust fallega. Ég efast því stórlega um að þessi elska verði send í geymsluna á næstunni...(sko kommóðan - ekki mamma).
Hér eru nokkrir hlutir komnir á vegginn :)
Kommóða með nýjum "hnúðum"


Gamla góða fermingarkommóðan í sinni upprunalegu mynd.
Nærmynd af "hnúð" sem mamma valdi svo vel fyrir mig.


Fyrir áhugasama: 
KitchenAid á Íslandi (kostar reyndar handlegg, nýra og tvær stórutær...)
Hægt er að fá KitcenAidvélar á innan við 30 þús í Ameríkunni... sjá dæmi Hér og hér og hér... Auðvitað þarf að borga smá skatt og burðast með stykkið heim en það borgar sig samt eiginlega!

Fyrir áhugafólk um hnúða þá má finna þá á Íslandi í búðum eins og Púkó og Smart, Snúðar og Snældur, Garðheimum o.fl.. Og það skemmtilegasta við svona "hnúðaskipti" er að oftast er hægt að breyta til baka :)

Ég veit ekki með ykkur en litlir hlutir eins og nýir hnúðar, ísblá hrærivél og/eða gömul kommóða kæta mig töluvert og bæta tilveruna mína örlítið. Efnishyggja - veit það ekki!

Sæl að sinni
HS