sunnudagur, 16. júní 2013

Með járnfrú í glugga...



Eiffelturninn er eitt þekktasta kennileiti í heims, staðsett á vinstri bakka árinnar Signu, nánar tiltekið Champ de Mars í París.
Frakkar hafa gefið turninum gælunafnið La Dame sem þýðir Járnfrúin á okkar tungumáli :)
Turninn er hæsta bygging Parísarborgar, 324 metrar á hæð og vegur um 7300 tonn. 

Í 41 ár var turninn hæsta bygging heims
Eiffelturninn í byggingu árið 1888

Hönnuður turnsins er hinn franski Gustave Eiffel og er turninn nefndur í höfuðið á honum. Eiffel turninn er þekktasta verk Gustave en hann hannaði einnig víravirkið í Frelsistyttunni góðu sem er staðsett í New York! 

Eiffelturninn var reistur á árunum 1887-1889 og tók það um 300 manns tvö ár að vinna verkið. Turninn var upphaflega hugsaður sem minnismerki Heimssýningarinnar sem haldin var í París árið 1889 í tilefni þess að hundrað ár voru liðin frá frönsku byltingunni. Upphaflega stóð til að rífa turninn niður að nokkrum árum liðnum því sumum fannst hann einungis vera forljótt járnvirki sem hafði engan praktískan tilgang. En Eiffelturninn var og er listaverk og hann fékk því að standa! (Guði sé lof)

Þar sem Eiffelturninn er gerður úr stáli fara á hverjum sjö árum um 50 tonn af málningu í það eitt að vernda hann gegn ryði!
Tokyo Tower í Japan
Paris Las Vegas Hotel - Nevada, USA
Vegna vinsælda hafa eftirlýkingar Eiffelturnsins verið reistar víðsvegar um heiminn. Hæst þeirra er Tokyo Tower í Japan, sem er 333 metrar á hæð
Önnur endurgerð turnsins stendur í Nevadafylki í Bandaríkjunum. Þar stendur turninn í hálfri raunstærð (165 metra hár) og er hluti af Paris Las Vegas Hotel.   


Í hinum eina sanna Eiffelturni er hægt er að ganga upp 1660 þrep. Þar taka svo við lyftur sem bera fólk upp á topp turnsins. Frá opnun turnsins hafa yfir 250 milljón manns heimsótt Eiffel turninn....
...Ég er EKKI ein þeirra! 

Þó hef ég lofað sjálfri mér að heimsækja Járnfrúna einn daginn (og jafnvel annan dag eftir það..) 

Ég og eftirlíking - UniversalStudios,LA,USA
Já mér finnst Eiffelturninn vera eitt allra fallegasta mannvirki í heimi. Það er eitthvað svo ótrúlega tignarlegt við lögun turnsins. Staðsetning turnsins gefur honum aukinn sjarma og já París og Eiffelturninn eru svona eins og góðir vinir sem bæta hver annan upp :)               
            
Áhugi minn á þessu einstaka mannvirki hefur svosem ekki farið framhjá mínum nánustu..
Ilmur Eiffelturnsins!
Síðastliðið sumar sá ég fyrst endurgerð turnsins í Universal Studios í Los Angeles. Þá hef ég af og til spreyjað á mig ilmvatni úr glasi með lögun Eiffelturnsins (ég vil þó meina að lyktin sé undir áhrifum blómanna í nágrenni turnsins..)
Parísarpoki sem
mamma færði mér

Eiffelturninn og
pappataska í hillu
Ég hef líka skreytt heimilið með einum og einum hlut sem tengist þessari elsku..



Um daginn kom upp sú staða að ég þurfti nauðsynlega að fá filmu í svaladyrnar mínar sem eru á áberandi stað í íbúðinni. 
Eins og venjulega vildi ég fara óhefðbundnar leiðir og helst fá mér eitthvað sem ég hafði ekki séð hjá öðrum. 

Þó fannst mér nauðsynlegt að myndin væri einföld og passaði vel í hurðina og jafnframt að hægt væri að sjá temmilega í gegn, hvorki of mikið né of lítið... 

Eins flott og mér finnst að hafa fallegan texta í gluggum finnst mér ókostur leturs sá að aðeins er hægt að lesa textann öðru megin. Því kom aðeins til greina að finna einfalda og fallega mynd sem hægt væri að njóta báðum megin við glerið.

Þið getið ímyndað ykkur hvað mér datt fyrst í hug :) 


Ég lét svo slag standa og pantaði mér eitt stykki Eiffelturn á filmu :) 


Útkomuna má sjá hér:















Ég er alsæl með útkomuna. Myndin í glugganum bætir svo sannarlega svalardyrnar og kætir mig og mína gesti.

Þessi Eiffelturn fær að duga næstu misseri eða þar til París tekur á móti mér með Járnfrúna sjálfa í broddi fylkingar :)
Góðar stundir









laugardagur, 25. maí 2013

Eitt og annað sem bætir og kætir

Sæl öll og velkomin :)

Mig hefur lengi langað að stofna lífsstílsblogg og hér er það orðið að veruleika. Orðið lífsstílsblogg er ekki til í orðabók en samkvæmt minni persónulegu orðabók þýðir það skrif um allt sem bætir eða kætir líf höfundar. Þetta lífsstílsblogg fjallar því um hluti, málefni, hreyfingu, mat og fólk sem bætir mitt líf eða kætir mína sálu :) Ykkur er velkomið að fylgjast með.

Auðvitað er það fyrst og fremst fólkið í kringum okkur sem bætir og kætir ... en hlutir geta líka glatt mann og verið manni mikilvægir. Oftar en ekki tengir maður hluti við ákveðið fólk, verkefni eða aðstæður sem skipta mann máli. Sumir hlutir geta auðveldað manni lífið og bætt lífsgæðin og gefa þannig tilverunni ákveðið gildi :)

Í þessu fyrsta bloggi ætla ég að deila mynd af kommóðu sem hefur fylgt mér frá fermingu. En frá því fyrir fermingu hef ég pælt mikið í og haft sterkar skoðanir á því hvernig ég vilji hafa mitt nánasta umhverfi - á ég þar við bæði fólk og hluti :)

Kommóðuna góðu fékk ég í fermingargjöf frá systkinum pabba og ég man að hún var keypt í búðinni Heimilisprýði. Þar vann Jónas, pabbi Sigurlaugar æskuvinkonu minnar (sem ég nánast bjó hjá í nokkur ár!!). Jónas var mikill vinur minn og búðin hans var auðvitað algjörlega uppáhalds. Þar fengust margir fallegir hlutir og allar mublur sem ég keypti eða fékk í fermingargjöf komu þaðan. Eftir nokkur ár og nokkra flutninga var mublan orðin léleg, Jónas lagaði hana fyrir mig og hún varð sem ný. Fyrir 5 árum féll Jónas frá, langt fyrir aldur fram og má í raun segja að kommóðan sé mér ögn kærari fyrir vikið. 

Fyrir nokkrum árum var ég orðin pínu þreytt á henni og hefur hún staðið inni í bílskúr undanfarin tvö ár. Nú er ég nýflutt á nýjan stað og ákvað að draga fram gömlu góðu kommóðuna. Mér fannst aðeins þurfa að lappa uppá hana en tímdi alls ekki að mála hana! Ég ákvað því að senda móður mína í uppáhalds amerísku búðina mína Anthropology. Mig vantaði fallega hnúða (e.knobs). Þeir máttu vera áberandi og annað hvort hvítir (í stíl við flest húsgögnin) eða ísbláir (í stíl við fallegu KitchenAid hrærivélina). Mamma fann þessa yndislegu hnúða sem gera hana (að mínu mati) svo endalaust fallega. Ég efast því stórlega um að þessi elska verði send í geymsluna á næstunni...(sko kommóðan - ekki mamma).
Hér eru nokkrir hlutir komnir á vegginn :)
Kommóða með nýjum "hnúðum"


Gamla góða fermingarkommóðan í sinni upprunalegu mynd.
Nærmynd af "hnúð" sem mamma valdi svo vel fyrir mig.


Fyrir áhugasama: 
KitchenAid á Íslandi (kostar reyndar handlegg, nýra og tvær stórutær...)
Hægt er að fá KitcenAidvélar á innan við 30 þús í Ameríkunni... sjá dæmi Hér og hér og hér... Auðvitað þarf að borga smá skatt og burðast með stykkið heim en það borgar sig samt eiginlega!

Fyrir áhugafólk um hnúða þá má finna þá á Íslandi í búðum eins og Púkó og Smart, Snúðar og Snældur, Garðheimum o.fl.. Og það skemmtilegasta við svona "hnúðaskipti" er að oftast er hægt að breyta til baka :)

Ég veit ekki með ykkur en litlir hlutir eins og nýir hnúðar, ísblá hrærivél og/eða gömul kommóða kæta mig töluvert og bæta tilveruna mína örlítið. Efnishyggja - veit það ekki!

Sæl að sinni
HS